Ljóða- og jólatónleikar

Um viðburðinn

Laugardaginn 17. desember halda þær Guja Sandholt mezzó-sópran og Helena Basilova, píanisti ljóða- og jólatónleika við kertaljós í Fríkirkjunni. Á efnisskránni eru hátíðleg íslensk og þýsk ljóða- og jólatónlist og gestum gefst tækifæri til að setjast niður, njóta fagurra tóna og komast í hátíðarskap. 

Guja og Helena eru báðar búsettar í Amsterdam í Hollandi þar sem þær vinna stundum saman. Á tónleikunum flytja þær meðal annars falleg verk eftir J.S.Bach, Wesendonck-ljóðin eftir Richard Wagner við ljóð Mathilde Wesendonck og íslenska jólasálma.

Guja Sandholt hefur búið í Amsterdam síðan 2010 og starfar þar sem sjálfstætt starfandi söngkona. Á undanförnum árum hefur hún unnið við ýmis verkefni í Hollandi og víðar og má þar til dæmis nefna „Nieuwe Stemmen“ prógrammið á Operadagen Rotterdam fyrir unga og upprennandi söngvara. Í fyrrasumar setti hún upp óperuna The Bear eftir William Walton á Players í Kópavogi ásamt nokkrum öðrum íslenskum listamönnum. Sú sýning vakti talsverða athygli og varð kveikjan að Óperudögum í Kópavogi en Guja var listrænn stjórnandi þeirra.

Guja hefur líka tekið þátt í flutningi á óratoríum á borð við Mattheusarpassíuna og Jólaóratoríuna eftir J.S.Bach, Requiem eftir Mozart og Duruflé, Stabat mater eftir Dvorak, Pergolesi og Abos, Messías eftir Handel og Messu í C eftir Beethoven á undanförnum misserum og sungið á hátíðum eins og Grachtenfestival, Holland Festival og Over het IJ Festival í Amsterdam. Hún syngur einnig reglulega með Hollenska útvarpskórnum og kemur oft fram á ljóðatónleikum með Heleen Vegter og Helenu Basilovu píanistum. Árið 2013 fór hún sem styrkþegi Wagner-félagsins til Bayreuth í Þýskalandi og á árunum 2011-2012 starfaði hún fyrir eistneska tónskáldið Arvo Pärt og fjölskyldu hans um hríð.

Guja stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Guildhall School of Music and Drama í London, Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og Konservatoríið í Utrecht í Hollandi. Aðalkennarar hennar á undanförnum árum voru Jón Þorsteinsson tenór og söngkennari við Konservatoríið í Utrecht og Charlotte Margiono sópransöngkona og fer hún enn reglulega í tíma til þeirra.

Helena Basilova fæddist í Rússlandi en fluttist ung að árum til Hollands. Móðir hennar er einnig píanisti og faðir hennar, Alexander Basilov, var virt tónskáld. Helena hefur í gegnum tíðina spilað alls kyns klassíska tónlist en nýtur þess auk sérstaklega að flytja tónlist frá heimalandi sínu, Rússlandi.

Í janúar 2013 gaf hún út geisladisk með verkum eftir tékkneska tónskáldið Leos Janacek sem hlaut frábærar viðtökur í evrópskum fréttamiðlum og fór hún í kjölfarið í tónleikaferðalög til Bandaríkjanna, Rússlands og Danmerkur. Geisladiskurinn Picturing Scriabin fylgdi í kjölfarið en þar flutti Helena verk eftir tónskáldið Scriabin sem fær oft ekki þá athygli sem tónlist hans verðskuldar. Á 100 ára dánarafmæli Scriabins, þann 27. apríl 2015, lék Helena verk eftir hann í fræga Scriabin tónlistarsalnum í Moskvu.

Helena hefur komið fram sem einleikari á stöðum á borð við Concertgebouw í Amsterdam, Weill Hall í Carnegie Hall, Symphony Space NYC, HPAC í Japan og í NCPA in Mumbai. Auk þess nýtur hún þess að spila kammertónlist og starfar einnig með jazztónlistarmönnum og núlifandi tónskáldum. Í desember 2012 frumflutti Helena verkið Enough Water eftir Molly Herron, sem var sérstaklega samið fyrir hana.

Framtíðarplön hennar fela í sér ýmsa tónleika þar sem Helena mun koma fram sem einleikari sem og samstarfsverkefni með myndlistarhópnum DEFRAME og kammerverkefni með jazzgítaristanum Reinier Baas, fiðluleikurunum Diamanda La Berge Dramm og saxófónleikaranum Eva van Grinsven. Auk þess vinnur Helena að langtímaverkefni sem felst í því að gefa út og taka upp tónlist eftir föður sinn, Alexander Basilov, en hann lést árið 2006.

 Helena hefur hlotið styrki frá NYU, Nuffic, NFPK, Prins Bernard Cultuurfonds, Josepha Brouwer Scholarship Fundation and hún hefur Steinway Grand Piano að láni frá Dutch National Music Instrument Foundation. Helena hefur starfað sem píanóprófessor í ArtEZ Konservatoríinu í Hollandi frá því í september 2016.