Alþjóðlegt orgelsumar

Um viðburðinn

Alþjóðlegt orgelsumar, hinir vinsælu sumartónleikar í Hallgrímskirkju, standa frá 18. júní til 21. ágúst þetta árið. Einu sinni í viku heldur kammerkórinn frábæri, Schola cantorum, tónleika í hádeginu. Þrisvar í viku má njóta þess að hlusta á hæfileikaríka organista, suma á heimsmælikvarða, leika á hið magnaða Klais-orgel kirkjunnar. Organistarnir eru bæði íslenskir og erlendir, en erlendu gestirnir þetta árið eru frá Bandaríkjunum, Svíþjóð, Hollandi, Bretlandi, Frakklandi, Lettlandi og Þýskalandi.

Christoph Schoener er fæddur í Heidelberg og lagði stund á orgelnám í Freiburg, París og Amsterdam. Árið 1998 hlotnaðist honum staða tónlistarstjóra við hina virtu St. Michaelis-kirkju í Hamborg og hefur upp frá því flutt öll stærstu verk Bachs og annarra helstu tónskálda fyrir kór og hljómsveit með kór kirkjunnar. Christoph hefur víða ferðast og leikið í helstu kirkjum og tónleikasölum Evrópu og Bandaríkjanna.

Hann gegndi um árabil stöðu kantors í Leverkusen og kenndi jafnframt orgelleik við Robert Schumann-skólann í Düsseldorf.  Frá 2013 hefur hann verið gestaprófessor við Tónlistar- og leiklistarháskólann sem kenndur er við Felix Mendelssohn í Leipzig. Á fastri efnisskrá Christophs eru orgelverk Bachs en hann hefur nokkrum sinnum leikið þau í heild sinni, og verk rómantískra, þýskra tónskálda í öndvegi. Dagskrá tónleikanna endurspeglar þetta en boðið verður upp á sannkallaða Bach-veislu kryddaða með Schumann, Reger og Brahms.