Prins Póló

Um viðburðinn

Prins Póló heldur til byggða fyrstu helgina í október og að þessu sinni mun sveitin halda tvenna tónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Fyrri tónleikarnir eru föstudagskvöldið 3. október klukkan 21.00 og seinni tónleikarnir laugardaginn 4. október klukkan 14.00 en seinni tónleikarnir eru sniðnir að þörfum yngri tónlistarunnenda. 

Prins Póló gaf í vor út breiðskífuna Sorrí og mun leika lög af henni auk laga úr kvikmyndinni París Norðursins sem nú er að gera það gott í kvikmyndahúsum. Einhver eldri lög munu svo fljóta með.

Dr. Gunni mun leika nokkur lög á undan Prinsinum. Á föstudagskvöldið hefur Doktorinn trommuheilann Dr. Rhythm sér til halds og trausts en Dr. Gunni gaf út talsvert af efni með hans liðsstyrk á miðjum tíunda áratug síðustu aldar. Þetta verður í fyrsta skipti í 20 ár sem Gunni spilar með upprunalega Doktornum. Á laugardaginn má búast við barnvænna prógrammi og trommuheilanum gefið frí.

Hinar vinsælu Prins Póló derhúfur sem og spánnýjir og sjóðheitir stuttermabolir verða boðin til sölu á tónleikunum auk áritaðra hljómplatna á sértöku tilboði.

Sjáumst í Firðinum!