Rauðasandur Festival

Um viðburðinn

Rauðasandur Festival er fjölskylduvæn tónlistar- og upplifunarhátíð sem nú er haldin í fjórða sinn í náttúruperlunni Rauðasandi á Vestfjörðum. Umhverfið er sláandi fagurt á þessum afvikna stað og er tónlistin í takt við það. Lögð er áhersla á popp, folk og reggae tónlist. Listamenn í ár eru meðal annarra Emilíana Torrini, Sam Amidon (US), Lay Low, Moses Hightower, Ylja, Amaba Dama, Boogie Trouble, My Bubba (DK), Soffía Björg, Nolo, Pascal Pinon, Loji, Bob Justman, Makril og Vök. Auk tónleikadagskrár er boðið upp á Yoga á sandinum, gönguferðir á söguslóðir, sandkastalakeppni og stóran varðeld þegar tónlistardagskrá lýkur síðasta kvöldið. Rauðasandur Festival er haldin á býlinu Melanesi. Ótrúlegar náttúruperlur og sögufrægir staðir eru innan göngufæris.

Innifalin í miðaverði er gisting á tjaldsvæði í þrjár nætur ásamt ýmsum fríðindum á sunnanverðum Vestfjörðum sem auglýst verða á heimasíðu hátíðarinnar. Armbönd verða afhent á staðnum gegn framvísun miða frá midi.is.

20 ára aldurstakmark, en allir undir 20 ára eru velkomnir í fylgd með foreldrum. Frítt inn fyrir 14 ára og yngri í fylgd með foreldrum.

Aðstandendur hátíðarinnar Rauðasandur Festival í samráði við sveitarfélagið Vesturbyggð og lögregluembætti Vestfjarða hafa tekið þá ákvörðun í ljósi veðurfarslegra aðstæðna að færa hátíðina yfir á Patreksfjörð að svo stöddu. Hátíðin hefst í kvöld og mun dagskrá lítið riðlast en dagskrárliðir fara fram í og við Sjóræningjahúsið á Patreksfirði en hátíðargestir fá gistingu inni í Félagsheimilinu á Patreksfirði. Aðstandendur hátíðarinnar vilja beina öllum gestum sem eru nú þegar á leið vestur að koma beint inn á Patreksfjörð og í Félagsheimilið, til heimilis að Aðalstræti 107 (fyrir ofan N1 bensínstöðina) til að fá frekari fréttir um dagskrána og fyrirkomulag varðandi gistingu. Rauðasandur Festival á Patró er ekkert síðri en á Rauðasandi og vilja aðstandendur hátíðarinnar koma á framfæri þakklæti til sveitarfélagsins Vesturbyggðar og lögregluembættis Vestfjarða fyrir samvinnuna en samin hafði verið aðgerðaráætlun fyrr á þessu ári ef aðstæður sem þessar myndu skapast. Aðstandendur hátíðarinnar hlakka til að taka á móti gestum sínum á Patreksfirði.