Hammondhátíð Djúpavogs

Um viðburðinn

Níunda Hammondhátíð Djúpavogs verður haldin dagana 24.-27. apríl.

Hammondhátíð, sem er fjögurra daga tónlistarhátíð , hefur það að meginhlutverki að heiðra og kynna Hammondorgelið. Er það gert með því að fá tónlistarmenn, allt frá heimamönnum til landsþekktra, til að leika listir sínar og er Hammondorgelið í forgrunni í gegnum alla dagskrána.

Listinn yfir þá tónlistarmenn og hljómsveitir sem komið hafa fram á hátíðinni í gegnum tíðina er orðinn langur og glæsilegur og hafa hljómsveitir og listamenn á borð við Hjálma, Baggalút, Nýdönsk, Dúndurfréttir, KK, Megas, Stórsveit Samma, Jónas og Ómar og Magnús og Jóhann heiðrað hátíðina með nærveru sinni. Allt í allt hafa um 150 tónlistarmenn stigið á stokk á Hammondhátíð. Þá hafa ófáir austfirskir tónlistarmenn komið fram auk þess sem þáttur heimamanna hefur verið rómaður en á fjórða tug tónlistarmanna og kvenna frá Djúpavogi hefur tekið þátt frá upphafi.

Dagskráin í ár sérstaklega glæsileg:

Fimmtudagur:
Tónskóli Djúpavogs
Vax
Mono Town

Föstudagur:
Tónlistarskóli FÍH
Skonrokk (Tyrkja-Gudda)

Laugardagur:
Todmobile

Sunnudagur:
Raggi Bjarna (ásamt Jóni Ólafs og Róberti Þórhalls)

Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi á hátíðinni í ár. Við bjóðum ykkur velkomin á Hammondhátíð Djúpavogs!