Biggi Hilmars, Sóley og Pétur Ben

Um viðburðinn

Laugardagskvöldið 21. desember munu Biggi Hilmars, Sóley og Pétur Ben ásamt hljómsveit halda veglega tónleika í Tjarnarbíó, þar sem þau flytja glænýtt efni í bland við eldra, ásamt því að frumflytja jólalag sem þau sömdu nýverið saman.

Biggi Hilmars
Biggi Hilmars söng sig inn í hjörtu landsmanna með hljómsveitinni Ampop árið 2006, en hefur síðastliðin ár starfað sem tónskáld í Bretlandi, Bandaríkjunum og hérlendis við ýmis kvikmynda-, leikhús-, dans- og auglýsingaverkefni. Má þar nefna samstarf hans við kvikmyndarisann Ridley Scott, breska leikstjórateymið Ash og Naeem Mahmood, Íslenska dansflokkinn og auglýsingar fyrir vörumerkin Nike, Chevrolet, Mercedes Benz og Motorola. Biggi gaf nýverið út sína fyrstu sólóbreiðskífu All We Can Be, sem hefur fengið mikið lof gagnrýnenda hér- og erlendis og var valin ein af 10 bestu plötum ársins af hlustendum Rásar 2 sl. ár. Ennfremur vann Biggi til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2006 fyrir lagið My Delusions með hljómsveit sinni Ampop, ásamt því að fá tilnefninguna hljómplata ársins og var platan Sail to the Moon með Ampop valin plata ársins af hlustendum Rásar 2 árið 2007. Í lagasmíðum sínum styðst Biggi oft við klassískar mínímalískar útsetningar, sem hann útsetur fyrir píanó og stærri hljómsveitir, í bland við dreymandi gítara og rödd sína.

Sóley
Sóley Stefánsdóttir er 27 ára tónlistarkona úr Hafnarfirði. Hún hefur verið á fleygiferð um heiminn allt frá því að fyrsta breiðskífa hennar We Sink kom út í lok 2011 hjá þýska útgáfumerkinu Morr Music. Sóley var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins og lagahöfundur ársins, ásamt því að vera tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna. Tónlist Sóleyjar er að mestu drifin áfram af píanói, oft mörgum píanólínum ofan í hver aðra. Tónlistin er á köflum dökk og dreymandi. Skrýtnar týpur, hlæjandi einmana hús og súrrealískar aðstæður upprunnar úr hugarfylgsnum eru yrkisefni, en þessa dagana er hún að semja sína næstu plötu.

Pétur Ben
Tónlistarmanninn Pétur Ben þarf vart að kynna. Hann hefur gefið út tvær plötur, Wine For My Weakness (2006) og God's Lonely Man (2012). Báðar hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda og var God's Lonely Man m.a. tilnefnd sem plata ársíns á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2013. Pétur er þekktur fyrir sinn einstaka gítarstíl og muna margir fyrst eftir honum í lagi Múgison Murr Murr frá 2004 þar sem hann spilaði ógleymanlegt gítarstef. Ári síðar voru honum veitt Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir bestu hljómplötu ársins í flokknum Rokk og jaðar fyrir hans fyrstu sólóplötu Wine for my Weakness. Á undanförnum árum hefur Pétur starfað með hinum ýmsu tónlistarmönnum, samið tónlist fyrir þrjár kvikmyndir auk þess að vinna að nýju plötunni sinni God's Lonely Man.