Hljóðön - Tónleikar

Um viðburðinn

Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari koma fram á síðustu tónleikum vetrarins í tónleikaröðinni Hljóðön í Hafnarborg. Á tónleikunum má hlýða á verk höfunda á borð við Salvatore Sciarrino, Beat Furrer, Sofiu Gubaidulinu, Horatiu Radulescu, Áshildi Haraldsdóttur og fleiri, ásamt því að heyra má verk nokkurra nemenda LHÍ sem spunnið hafa verk í kringum hljóðanir, þessar smæstu byggingareiningar tungumálsins.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist frá 20. og 21. öldinni þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Nafn tónleikaraðarinnar skírskotar til smæstu merkingargreinandi hljóðeininga tungumála, grunneininga sem púsla má ólíkt saman svo úr verði tilraun til merkingar. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin er styrkt af tónlistarsjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins.