Hljóðön - Samræða um tákn

Um viðburðinn

Borgar Magnason kontrabassaleikari og Páll Ivan frá Eiðum, flytjandi og tónskáld, koma fram á tónleikum í tónleikaröðinni Hljóðön sunnudaginn 9. mars 2014, kl. 20. Á efnisskrá tónleikanna eru tónverk þar sem endanleg mynd verksins er látin eftir flytjandanum og augnabliki flutningsins. Á meðal höfunda verka eru James Tenney, Matthew Shlomowitz, Cornelius Cardew, Borgar Magnason og fleiri.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist frá 20. og 21. öldinni þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Nafn tónleikaraðarinnar skírskotar til smæstu merkingargreinandi hljóðeininga tungumála, grunneininga sem púsla má ólíkt saman svo úr verði tilraun til merkingar. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin er styrkt af tónlistarsjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins.