David Byrne og St. Vincent

Um viðburðinn

Það þarf vart að kynna David Byrne eða St. Vincent (aka Annie Clark) fyrir tónlistaráhugafólki. Ferill þeirra er mislangur en afar farsæll. Þau leiddu saman hesta sína fyrir nokkrum misserum og tóku upp plötu. Afraksturinn leit dagsins ljós á síðasta ári og platan Love this Giant var af mörgum talin plata ársins 2012.

Tónleikar David Byrne hafa frá fyrstu dögum Talking Heads verið eyrna- og augnakonfekt. Hann fer ekki troðnar slóðir en heldur sig við þá megin reglu að skemmta áhorfendum og gera eitthvað frumlegt og nýtt. Samstarf Byrne og St. Vincent er þar engin undantekning og hafa tónleikar þeirra til þessa hlotið frábæra dóma út um allan heim. Hljómsveitin samanstendur m.a. af brassbandi sem fer algjörlega á kostum.

Það er mikill fengur fyrir okkur Íslendinga að David Byrne og St. Vincent leggi leið sína hingað. Þau spila aðeins á völdum stöðum í Evrópu og eru tónleikasalirnir sérvaldir.