Marketa Irglova

Um viðburðinn

Marketa Irglova á tónleikum í Reykjavík
-Gym&Tonic á KEX 4. apríl.

Tékkneska tónlistarkonan Marketa Irglova er stödd hér á landi ásamt hljómsveit við upptökur. Margir kannast eflaust við Marketu úr dúettinum The Swell Season sem hún skipar ásamt íranum Glen Hansard. The Swell Season héldu einmitt eftirminnilega tónleika á Nasa í október 2010.

Þó ung að árum sé (fædd 1988) hefur Marketa, eða Mar einsog hún er kölluð, afrekað margt um ævina. Hún er handhafi Óskarsverðlauna fyrir lagið 'Falling Slowly' úr myndinni 'Once' sem gerði stormandi lukku um allan heim. Marketa samdi lagið með Glen og lék einnig aðalhlutverkið í myndinni á móti honum. Marketa var fyrsta tékkneska konan til að vinna Óskar og einnig yngsti vinningshafi Óskars fyrir tónlist í sögu Óskarsins, enda einungis 19 ára þegar hún tók við verðlaununum í Kodak Theater í Los Angeles 24. febrúar 2008. Nýlega var söngleikurinn 'Once' settur upp á Broadway.

Á síðasta ári gaf Marketa út sína fyrstu sólóplötu 'Anar' sem kom út hjá hinu virta útgáfufyrirtæki ANTI í Bandaríkjunum. Áður hafði hún gefið út tvær plötur með The Swell Season auk tónlistarinnar við 'Once' og hefur hún ferðast út um allan heim til tónleikahalds. Marketa spilaði einnig og söng með Iron & Wine á síðasta tónleikaferðalagi hans.

Marketa kemur fram á tónleikum á KEX miðvikudagskvöldið 4. apríl n.k. ásamt hljómveit sinni. Þar mun hún flytja sitt eigið efni í bland við efni sem hún hefur unnið með The Swell Season og jafnvel læðast inn ný lög frá upptökunum sem hún er að gera hér á Íslandi.

Tónleikarnir fara fram í salnum Gym&Tonic á KEX og opnar salurinn kl. 20:00 og tónleikarnir hefjast kl. 20:30. Frjálst sætaval er en setið verður á gólfinu og er fólk því hvatt til að koma með púða með sér til að eiga notalega kvöldstund.

Einungis 120 aðgöngumiðar eru í boði á tónleikana og verða þeir einungis seldir í forsölu hjá midi.is og afgreiðslustöðum mida.is

Verð aðgöngumiða er 2.900.- kr.