Árstíðir og Lay Low

Um viðburðinn

Hátíðartónleikar Árstíða og Lay Low

Hljómsveitin Árstíðir og Lay Low hafa ákveðið að sameina krafta sína þessi jólin og efna til sannkallaðrar hátíðarveislu á Þorláksmessu í Fríkirkjunni í Reykjavík. Þetta er fjórða árið í röð sem Árstíðir spila í Fríkirkjunni í síðari hluta desember og má því segja að komin sé á hefð fyrir þessum hátíðartónleikum. Lay Low tekur nú þátt í fyrsta skipti en hún er ekki ókunn Fríkirkjunni og hélt meðal annars útgáfutónleika sína þar fyrir stuttu við góðan orðstír. Á tónleikunum munu listamennirnir flytja eigið efni í bland við jólalög sem standa þeim nærri.

Hljómsveitin Árstíðir var stofnuð í Reykjavík árið 2008 og er skipuð sex meðlimum. Sveitin spilar tónlist sem einkennist af rödduðum söng og órafmögnuðum hljóðfæraleik. Nýlega kom út önnur breiðskífa hennar sem hefur hlotið nafnið „Svefns og vöku skil“ og sá Ólafur Arnalds um upptökustjórn. Af tilefni útgáfunnar voru haldnir tvennir útgáfutónleikar í Hofi á Akureyri og í Salnum Kópavogi. Frá stofnun sveitarinnar hefur meðlimum fjölgað úr þremur í sex og hefur hljóðmyndin stækkað jafnt og þétt á ferli hennar. Árstíðir hélt í þrjú tónleikaferðalög víðsvegar um Evrópu á árinu og ferðuðust m.a. til Rússlands þar sem hljómsveitin kom fram á 11 tónleikum í 8 borgum.

Lovísa eða Lay Low gaf nýverið út sína þriðju breiðskífu og nefnist afkvæmið Brostinn strengur. Brostinn strengur mætti kalla innilegustu plötu Lay Low til þessa. Hún heldur áfram að leita í rætur þjóðlagatónlistar og þó að platan sé á köflum blússkotin er hún meira í anda gamallrar folk-tónlistar en síðustu plötur, og á tímum er hún jafnvel nokkuð rokkuð. Á plötunni, sem er öll á íslensku, leitaði Lay Low í kvenlegan menningararf, en allir textar plötunnar eru sóttir í ljóð eftir aðrar íslenskar konur, fyrir utan eitt sem er eftir Lovísu sjálfa. Má þar t.d. nefna ljóð eftir Margréti Jónsdóttur, Huldu (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind), Guðrúnu Magnúsdóttur og Hugrúnu (Filippía Kristjánsdóttir). Í haust hefur Lay Low verið dugleg að ferðast um landið og halda tónleika ásamt hljómsveit sinni.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 en húsið opnar kl. 20:30.