Lay Low 2011

Um viðburðinn

Lay Low hefur sent frá sína þriðju breiðskífu. Afkvæmið nefnist Brostinn strengur en á henni syngur hún í fyrsta sinn eingöngu á íslensku. Fyrri plötur Lay Low, Please Don't Hate Me og Farewell Good Night's Sleep hafa samtals selst í meira en 20 þúsund, og því er óhætt að fullyrða að Lay Low sé með vinsælustu listamönnum landsins.

Brostinn strengur mætti kalla innilegustu plötu Lay Low til þessa. Hún heldur áfram að leita í rætur þjóðlagatónlistar og þó að platan sé á köflum blússkotin er hún meira í anda gamallrar folk-tónlistar en síðustu plötur, og á tímum er hún jafnvel nokkuð rokkuð. Á plötunni, sem er öll á íslensku, leitaði Lay Low í kvenlegan menningararf, en allir textar plötunnar eru sóttir í ljóð eftir aðrar íslenskar konur, fyrir utan eitt sem er eftir Lovísu sjálfa. Má þar t.d. nefna ljóð eftir Margréti Jónsdóttur, Huldu (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind), Guðrúnu Magnúsdóttur og Hugrúnu (Filippía Kristjánsdóttir).

Platan var að mestu leyti tekin upp í sumar, nánar tiltekið í Orgelsmiðjunni. Upptökustjórn var í höndum Magnúsar Öder, sem notaðist m.a. mikið við segulbandsupptökur í ferlinu.

Brostinn strengur hefur fengið afar góða dóma hjá gagnrýnendum og hefur fengið frábærar viðtökur á öldum ljósvakans.

Morgunblaðið **** 1/2
Fréttablaðið ****
Fréttatíminn *****

Þetta er í þriðja sinn sem Lay Low heldur útgáfutónleika í Fríkirkjunni. Please Don’t Hate Me útgáfutónleikarnir voru fyrir fullu húsi 2006 og svo aftur á Iceland Airwaves helginni 2008 en þá voru útgáfutónleikar Farewell Good Night’s Sleep.

Ekki missa af þessu einstaka tækifæri til hlýða á Lay Low og hljómsveit. Endilega náið ykkur í miða sem fyrst, á fyrri tónleikum Lay Low í Fríkirkjunni hefur orðið uppselt fljótt.