Rafmagnslaust1

Um viðburðinn

Á fimmtudagskvöld verður hleypt af stokkunum nýrri tónleikaröð sem ber heitið “Rafmagnslaust á Norðurpólnum” og fer fram eins og nafnið ber með sér í nýlegu leikhúsrými á Seltjarnarnesi. Um er að ræða nýja tónleikaröð þar sem tveimur ólíkum hljómsveitum er stefnt saman, þær spila “unplugged” sett auk þess sem þeim er gert að undirbúa sameiginlegt verk sem síðan er sýnt á tónleikakvöldinu.

Hljómsveitirnar Agent Fresco og Orpic Oxtra hefja leikinn á fimmtudagskvöld en meðal hljómsveita sem staðfest hafa þátttöku sína eru hljómsveitin Valdimar, Mugison, Samúel Jón Samúelsson og Stórsveit Reykjavíkur og Of Monsters and Men.

Markmiðið með þessari uppsetningu er fyrst og fremst að setja fram nýstárlegt tónleikaform og skapa nánd við áhorfendur. Sköpunargleðin er virkjuð með verkefni sem felur í sér tengingu við aðra listamenn og miðla.