Ólafur Arnalds

Um viðburðinn

Útgáfutónleikar Ólaf Arnalds í Salnum, þriðjudagskvöldið 22. desember.

Í tilefni af útkomu plötunnar Found Songs hyggst tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds halda sérstaka útgáfutónleika í Salnum, Kópavaogi, þriðjudagskvöldið 22. desember. Húsið opnar kl. 20 og miðaverð er aðeins 2.000 krónur.

Ólafur hyggst tjalda öllu til á tónleikunum, og flýgur m.a. hingað til lands tæknifólki sem hann hefur starfað með á tónleikaferðalögum erlendis. Einnig hefur Ólafur bætt við meðlimaskipan sína á tónleikum, og því verður þetta stærsta umgjörð sem Ólafur hefur smíðað í kringum tónleika hérlendis.

Ekki er langt síðan að Found Songs kom út hér á landi. Platan kom út fyrir þónokkru síðan utan Íslands á vegum Ereased Tapes en það er Ólafur sjálfur sem sér um útgáfuna hérlendis. Afkimi annast hins vegar dreifingu.

Found Songs er sjö laga stuttskífa með merkilega sögu sem hófst í apríl á þessu ári. Þá hóf Ólafur gerð lagaraðar, Found Songs, þar sem ætlunin var að semja sjö lög – eitt á dag í viku - til að halda listsköpun sinni gangandi og nýta hugmyndir sem ekki höfðu náð að rata á fyrri plötur hans. Verkefnið var óvenjulegt á marga vegu, til dæmis voru lögin afhjúpuð og gefin frítt til niðurhals samstundis og þau voru fullkláruð í gegnum vefsíðuna Twitter, prýdd list frá aðdáendum Ólafs í gegnum myndasíðuna Flickr. Á endanum höfðu rúmlega 100.000 manns halað verkefninu niður.

Platan hefur nú þegar fengið afar lofsamlega umfjöllun hjá helstu tónlistarmiðlum heimsins. T.d. sagði Drowned in Sound að platan væri fallegasta verk Ólafs til þessa og gaf henni 8 af 10 mögulegum ásamt því að tímaritið Uncut gaf plötunni 4 stjörnur af 5 mögulegum og sagði hana glæsilega.