Norden Blues Festival 2009

Um viðburðinn

Blúshátíð í Rangárvallasýslu "Norden Blues Festival"

Haldin verður Blúshátíð í Rangárvallasýslu um hvítasunnuhelgina undir nafninu Norden Blues Festival.  Hátíðin stendur í þrjá daga þ.e. 29. 30. og 31. maí.  Það er Hekla Blúsfélag  sem stendur fyrir hátíðinni, en það félag var stofnað snemma á þessu ári.

Á tónlistarhátíðinni sem er mjög viðamikil koma fram margir þekktir listamenn svo sem blússprengjan Grana´ Louise frá Chicago ásamt Blue Ice Band  (Vinum Dóra)  Einnig munu íslensku Dívurnar Andrea Gylfadóttir, Kristjana Stefánsdóttir og Ragnheiður Gröndal  koma fram á hátíðinni ásamt frábærum tónlistarmönnum. Eftirtaldar hljómsveitir eru einnig skráðar sem þátttakendur á hátíðinni: Blúsmenn Andreu, Tregasveit Kristjönu, R.B. Blúsband, Mood, Chernobyl, Slow Train, South River Band, Blúsþrjótarnir, Óli Stolz & Co, The Dirty Deal, Spottarnir, Ferlegheit, Hot Babes & The Hottest, Munaðarleysingjarnir, Síðasti Séns o.fl. o.fl.

Tónlistarhátíðin mun dreifast nokkuð um héraðið, en útgangspunktar hátíðarinnar verða byggðarkjarnarnir Hella og Hvolsvöllur ásamt ferðaþjónustuaðilum í Fljótshlíð. Einnig verða  tónlistaruppákomur í Þykkvabæ og á Landvegamótum. Þungamiðja kvöldtónleika verða stórtónleikar á Hvoli á Hvolsvelli. Tónleikar verða haldnir á 11 stöðum og eru skipulagðir tónleikar á hátíðinni liðlega 40. Gert er ráð fyrir að fólk nýti sér þá gistimöguleika sem til staðar eru í byggðarlaginu s.s. gistihús og tjaldsvæði. Skipulagðar verða rútuferðir á milli tónleikastaða og helstu gististaða, meðan á hátíðinni stendur, þannig að allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi.

Við viljum benda fólki á Helgarmiðann, en hann gildir sem aðgöngumiði inná alla tónleika hátíðarinnar.