Ólafur Arnalds 2008

Um viðburðinn

Ólafur Arnalds lýkur 6 mánaða tónleikaferðalagi á Íslandi
Tónleikar í Fríkirkjunni 18. Desember
Sérstakur gestur á tónleikunum verður Ólöf Arnalds.

Ólafur Arnalds er nýjasta stóra útflutningsafurð Íslenskrar tónlistar. Aðeins 22 ára að aldri hefur hann nú þegar selt þúsundir platna og fyllt tónleikahallir víðsvegar um heiminn, þar á meðal Barbican Hall í London. Ólafur mun ljúka 6 mánaða tónleikaferð sinni um heiminn hér á Íslandi með tónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík fimmtudaginn 18. Desember.

Tónlist Ólafs færir mann í aðrar hæðir með heim af viðkvæmum, sinfónískum tónsmíðum undir áhrifum rómantíkarinnar, en með því að blanda píanói og strengjahjóðfærum við rafræn hljóð og trommutakta verður tónlistin jafn áhugaverð fyrir eyru nútímans.

Frumburður hins 21 árs Ólafs Arnalds, “Eulogy for Evolution”, tók hlustandann í ferðalag frá fæðingu til dauða. Platan fékk vægast sagt frábæra dóma í bæði innlendum sem erlendum miðlum auk þess að hann endaði mjög hátt á mörgum “Bestu plötur 2007” listum víðsvegar um heiminn. Í Maí gaf Ólafur svo út stuttskífuna Variations of Static en þar hélt hann í klassískan grunn frumburðar síns en kynnti einnig til sögunnar elektróník. Ólafur vinnur nú að þriðju plötu sinni en viðræður eru í gangi við nokkra erlenda útgáfurisa um útgáfu hennar.