Jónas Sig - Frá Malbiki til Milda hjartans

Um viðburðinn

Kæra fólk

Loksins er langþráður draumur að rætast og gaman að geta deilt því með ykkur. Málið er að mig hefur svo lengi langað til að halda stutta tónleikaröð í Fjarðarborg á Borgarfirði eystra kringum Bræðsluna. Eitthvað sem myndi kallast á við tónleikaröðina sem ég hélt þar árið 2012 nema helst ekki alveg sama brjálæðið enda var það alveg einstök upplifun sem ekki verður endurtekin á einu æviskeiði. Sömuleiðis hefur mig lengi langað að taka utan um plöturnar mínar sem ég hef gefið út hingað til og líta aðeins yfir farin veg. 

Í ár myndaðist svo loksins frábært tækifæri þar sem við Milda hjarta bandið erum að spila á Bræðslunni 2019. Við gripum því gæsina og höfum í samráði við ,,Já Sæll ehf meistarana” í Fjarðarborg stillt upp tónleikaröð frá 21. júlí til og með 24. júlí. Sem sagt, sunnudag, mánudag, þriðjudag og miðvikudag fyrir Bræðsluna. Fjórir tónleikar í röð og á hverjum tónleikum munum við taka fyrir ákveðna plötu, segja sögur og rifja upp góðar minningar tengdar lögunum. Hljómsveitina skipa sem fyrr: Ómar Guðjónsson, Arnar Gíslason, Guðni Finnsson og Tómas Jónsson. Líklega munu fleiri gestir koma við sögu enda stemningin í Fjarðarborg þannig að allt getur gerst þegar hitnar í kolunum.

Sunnudagur 21. júlí: Þar sem malbikið svífur mun ég dansa
Mánudagur 22. júlí: Allt er eitthvað
Þriðjudagur 23. júlí: Þar sem himin ber við haf
Miðvikudagur 24. júli: Milda hjartað

Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessari tónleikaröð og allir í bandinu fullir eftirvæntingar.  Það er einhver einstakur galdur sem verður til með endurteknu tónleikahaldi sem stendur yfir nokkra daga í röð.  Hvað þá þegar slíkt fer framá sólbjörtum sumarkvöldum í Fjarðarborg. 

VIð höfum sett saman pakka til að gera dæmið einstaklega aðgengilegt fyrir þá sem hafa áhuga á að taka þátt í öllu ævintýrinu með okkur.

* Pakki sem gildir á alla tónleikana verður á sérstöku “early bird” tilboði sem eru 9.000.- krónur. Aðeins 50 miðar í boði.
* Eftir það gildir eftirfarandi
* Aðgangsmiði: Öll tónleikaröðin. 10.000.-
* Aðgangsmiði: Stakir tónleikar. 3.500.-

Vó! hvað ég hlakka til, þetta verður eitthvað!