Lokatónleikar Kirkjulistahátíðar 2019. “Eilífðareldur, uppspretta ástar”

Um viðburðinn

 Lokatónleikar Kirkjulistahátíðar 2019 — „Eilífðareldur, uppspretta ástar“. 

Fluttar verða hvítasunnukantöturnar "Erschallet, ihr Lieder", BWV 172 og "O ewiges Feuer, o Ursprung der Liebe", BWV 34, og páskakantatan "Bleib bei uns, denn es will Abend werden", BWV 6, eftir Johann Sebastian Bach, og sömuleiðis frumflutt "Veni, Sancte Spiritus", hvítasunnukantata eftir Sigurð Sævarsson.
Glæsileg barokk hátíðartónlist fyrir trompeta, pákur, strengi, óbó og flautur, kóra og 5 einsöngvara með margverðlaunuðum og viðurkenndum flytjendum. Ný kantata Sigurðar Sævarssonar kemur með fallega andstæðu með kyrru og hrífandi tónmáli hans.
Stjórnandi Hörður Áskelsson.

EFNISSKRÁ:
Johann Sebastian Bach (1685–1750):
Erschallet, ihr Lieder, BWV 172 

Sigurður Sævarsson (f. 1963):
Veni, Sancte Spiritus (frumflutningur) 

Hlé
Johann Sebastian Bach:
Bleib bei uns, denn es will Abend werden, BWV 6 

Johann Sebastian Bach:
O ewiges Feuer, o Ursprung der Liebe, BWV 34* 

Flytjendur: Herdís Anna Jónasdóttir, sópran
Hildigunnur Einarsdóttir, alt
David Erler, kontratenór
Benedikt Kristjánsson, tenór
Oddur Arnþór Jónsson, bassi
Schola cantorum
Mótettukór Hallgrímskirkju*
Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju
Stjórnandi: Hörður Áskelsson 

Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju er skipuð úrvalshljóðfæraleikurum víðs vegar að úr heiminum, en meðlimir sveitarinnar eiga það flestir sameiginlegt að hafa numið við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi sem er leiðandi í kennslu á barokkhljóðfæri. Að námi loknu hafa meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar haslað sér völl sem eftirsóttir hljóðfæraleikarar og leika nú reglulega með mörgum af helstu upprunasveitum heims undir stjórn nafntogaðra stjórnenda. Má þar nefna hljómsveitir á borð við Les Arts Florissants, Barokksveitina í Amsterdam, Bach Collegium Japan, Orchestra of the Age of Enlightenment, Collegium Vocale Gent og stjórnendur á borð við William Christie, Ton Koopman, Masaaki Suzuki og Philippe Herreweghe. Meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Hallgrímskirkju hafa verið tíðir gestir á Íslandi frá því að þeir komu fyrst til að taka þátt í flutningi á Jólaóratóríu Bachs árið 2004 og 2005, en sveitin kemur nú saman til tónleikahalds með kórum Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar í ellefta sinn. Sveitin kom fram á Kirkjulistahátíð 2005, 2007 og 2015, og lék á 30 ára afmælistónleikum Mótettukórsins og 30 ára vígsluafmælistónleikum Hallgrímskirkju. Sveitin hefur einnig leikið í Hörpu og í Hofi á Akureyri. Meðal verka sem Alþjóðlega barokksveitin hefur leikið með Mótettukór Hallgrímskirkju eru Matteusarpassía, Jóhannesarpassía og H-moll-messa Bachs, Salómon eftir Händel og Te Deum eftir Charpentier, en með Schola cantorum hefur sveitin flutt Messías og Ísrael í Egyptalandi eftir Händel og Jólaóratóríu Bachs. Hljómsveitin hefur undantekningarlaust fengið frábæra dóma fyrir leik sinn og hefur átt ómetanlegan þátt í að kynna flutningsmáta upprunastefnu og hljóðfæri barokktímans hér á landi. 
Þjóðverjinn David Erler er meðal helstu kontratenóra af yngri kynslóð nú á dögum. Hann nam söng og tónlistarfræði í Leipzig. Á námsárum sótti hann meistaranámskeið hjá Andreas Scholl og hópnum The King’s Singers. David Erler kemur reglulega fram með stjórnendum á borð við Philippe Herreweghe, Jos van Immerseel, Hans-Christoph Rademann og Gotthold Schwarz. Erler leggur sérstaka rækt við endurreisnartónlist og við ítalska og einkum enska tónlist 17. og 18. aldar. Söng hans má heyra á fleiri en 70 hljómplötum, og má þar sérstaklega minnast á heildarflutning á verkum eftir Heinrich Schütz undir stjórn Hans-Christophs Rademanns. Erler kemur reglulega fram á tónlistarhátíðum í Þýskalandi og Austurríki. Undanfarið hefur David Erler tekið að sér ritstjórnarog fræðistörf í auknum mæli; hann var til að mynda nýlega ráðinn ritstjóri heildarútgáfu á verkum tónskáldsins Johanns Kuhnau hjá útgáfufyrirtækinu virta Breitkopf & Härtel, en sum þeirra hafa aldrei verið prentuð áður. Þá gaf hann nýlega út á nótum Requiem, ZWV 46, eftir Jan Dismas Zelenka. 

Benedikt Kristjánsson lærði söng við Söngskólann í Reykjavík og söng jafnframt í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og í Hamrahlíðarkórnum. Hann lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2007 þar sem Margrét Bóasdóttir var kennari hans. Þá hélt hann til Berlínar og lauk framhaldsnámi frá Hochschule für Musik Hanns Eisler árið 2015. Aðalkennari hans þar var Scot Weir. Benedikt hlaut fyrstu verðlaun í Bach-söngkeppninni í Greifswald árið 2011 og einnig verðlaun áheyrenda. Hann hlaut verðlaun áheyrenda í Bach-keppninni í Leipzig árið 2012. Benedikt hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem bjartasta vonin árið 2012 en árið 2016 hlaut hann verðlaunin sem söngvari ársins. Benedikt hefur víða komið fram í hlutverki guðspjallamanns í passíum og óratóríum Johanns Sebastians Bachs og sungið með hljómsveitum á borð við Deutsche Kammerphilharmonie Bremen, Staatskapelle Berlin og Freiburger Barockorchester. Hann hefur komið fram sem einsöngvari í mörgum af þekktustu tónleikahúsum heims, eins og Fílharmóníunni í Berlín, Concertgebouw í Amsterdam og í Walt Disney Hall í Los Angeles, og þá hefur hann unnið með virtum stjórnendum á borð við Reinhard Goebel, Peter Dijkstra og Philippe Herreweghe. Nýlega kom út fyrsta einsöngsplata Benedikts, Drang in die Ferne. Fram undan eru einsöngstónleikar á Bach-hátíðinni í Leipzig og í Elbphilharmonie-höllinni í Hamborg, hljóðritun á óperunni Les Boréades eftir Rameau undir stjórn Václavs Luks og tónleikaferðalag með Gaechinger Cantorey um Norður-Ameríku undir stjórn Hans-Christophs Rademanns. 

Herdís Anna Jónasdóttir lærði á fiðlu og píanó og stundaði söngnám frá unga aldri við Tónlistarskólann á Ísafirði. Hún fór í framhaldsnám í söng við Listaháskóla Íslands og Hochschule für Musik Hanns Eisler í Berlín. Hún lauk prófi þaðan árið 2012 með ágætiseinkunn og var þá ráðin að óperustúdíóinu við Zürich-óperuna. Árin 2013–2018 var hún fastráðin við Ríkisóperu Saarlands í Saarbrücken, en er nú sjálfstætt starfandi og býr í Berlín. Herdís hefur tekið þátt í fjölmörgum óperuuppfærslum í Þýskalandi, á Íslandi og í Sviss. Meðal helstu hlutverka eru Adina í Ástardrykknum, Adele í Leðurblökunni, Zerlina í Don Giovanni, drottningin af Sjemakha í Gullna hananum, Maria í West Side Story, Eliza í My Fair Lady, Nannetta í Falstaff og Oscar í Grímudansleiknum. Herdís hefur einnig margsinnis komið fram á tónleikum, til dæmis með Kammersveit Reykjavíkur, á Carl Orff-tónlistarhátíðinni, með Ríkishljómsveit Saarlands, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Canberra. Herdís hefur tvívegis sungið í uppfærslum Íslensku óperunnar, árið 2012 var hún í hlutverki Musettu í La bohème, og nú nýverið var hún í hlutverki Violettu Valéry í La traviata.

Oddur Arnþór Jónsson barítón lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík. Hann stundaði framhaldsnám í óperu- og ljóðasöng við Mozarteum-háskólann í Salzburg og hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi meistarapróf. Oddur hefur sungið fjölda óperuhlutverka við Íslensku óperuna og ber þar helst að nefna Don Giovanni, Figaro í Rakaranum frá Sevilla og Rodrigo í Don Carlo. Hann hefur einnig fengist við ljóðasöng og flutt Das Lied von der Erde eftir Gustav Mahler í Garnier-óperunni í París, og Vetrarferðina og Schwanengesang á Schuberthátíðinni í Vilabertran á Spáni. Oddur hefur komið fram með Mótettukór Hallgrímskirkju og Herði Áskelssyni í Matteusarpassíunni eftir Bach, Salómoni eftir Händel, Te Deum eftir Charpentier og Messu í F-dúr eftir Bach. Oddur söng aðalhlutverkið (Michael) í Brothers, verðlaunaóperu Daníels Bjarnasonar, á Listahátíð 2018 og hlaut fyrir það Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngvari ársins. Hann var útnefndur bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2014 fyrir hlutverk sitt í Don Carlo, sem var frumraun hans í Íslensku óperunni. Oddur hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum ljóðakeppnum. Hann fékk Schubert-verðlaunin og verðlaun sem besti ljóða- og óratóríuflytjandinn í Francesc Viñas-keppninni í Barcelona. Hann sigraði í Brahms- keppninni í Austurríki og varð þriðji í Schubert- keppninni í Dortmund.

Hildigunnur Einarsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2010 undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Signýjar Sæmundsdóttur. Síðar stundaði hún framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi hjá Janet Williams og Jóni Þorsteinssyni. Hildigunnur lauk nýverið BA-prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands. Hildigunnur stjórnar kórum og leiðir tónlistarsmiðjur um allt land og syngur meðal annars með Schola cantorum og Kór Íslensku óperunnar. Hildigunnur kemur reglulega fram sem einsöngvari hérlendis sem erlendis og af nýlegum verkefnum má nefna Klassíkina okkar, opnunartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Messías og Júdas Makkabeus eftir Händel, Matteusarpassíuna, Jóhannesarpassíuna og Jólaóratóríuna eftir Bach og Guðbrandsmessu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Hildigunnur Einarsdóttir söng nýlega hlutverk móðurinnar í Hans og Grétu hjá Íslensku óperunni. Hildigunnur var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014 fyrir túlkun sína á sönglögum Karls O. Runólfssonar með kammerhópnum Kúbus. 

Finninn Tuomo Suni lærði barokkfiðluleik heima í Finnlandi hjá Kreetu-Mariu Kentala og hélt síðan til náms við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi. Þar nam hann hjá Enrico Gatti og útskrifaðist með meistaragráðu í fiðluleik árið 2005. Síðan þá hefur Suni aðallega fengist við kammertónlist og komið fram og hljóðritað með sveitum á borð við Opera Quarta, Ensemble Masques, Capriccio Stravagante og Ricercar Consort. Tvisvar hafa hljóðritanir sem Tuomo Suni tók þátt í hlotið frönsku Diapason d’Or-viðurkenninguna; annars vegar plata sveitarinnar Opera Quarta með tríósónötum eftir Leclair árið 2007, og hins vegar plata Ensemble Masques með verkum eftir austurríska 17. aldar tónskáldið Romanus Weichlein árið 2015. Suni er leiðari sveitarinnar Vox Luminis, leiðari annarrar fiðlu í sveitinni The English Concert, og leikur reglulega með Barokksveitinni í Helsinki, The Early Opera Company, Dunedin Consort og Bach Collegium Japan. 

Sigurður Sævarsson hóf söngnám hjá Árna Sighvatssyni í Tónlistarskólanum í Keflavík. Þaðan lá leiðin í Nýja tónlistarskólann þar sem kennarar hans voru Sigurður Demetz Franzson og Alina Dubik. Sigurður hélt þaðan í söng- og tónsmíðanám við Boston-háskóla í Bandaríkjunum. Hann lauk meistaragráðu þaðan í báðum greinum árið 1997. Sigurður hefur að mestu einbeitt sér að því að semja fyrir söngrödd. Hann hefur samið tvær óperur, Z — ástarsögu, sem byggð er á skáldverki Vigdísar Grímsdóttur, og Hel, sem byggð er á skáldverki Sigurðar Nordals. Meðal stærri kórverka má nefna Hallgrímspassíu fyrir kór, hljómsveit og einsöngvara sem Schola cantorum frumflutti ásamt Caput-hópnum og Jóhanni Smára Sævarssyni bassa undir stjórn Harðar Áskelssonar. Verkið var síðar hljóðritað og hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem besta hljómplatan. Meðal annarra stórra verka má nefna Missa Pacis sem Sigurður samdi fyrir Hljómeyki er hann var staðartónskáld í Skálholti; Jólaóratóríu fyrir kór, hljómsveit og einsöngvara; og Requiem sem Schola cantorum frumflutti undir stjórn Harðar Áskelssonar. Undanfarin þrjú ár hefur Sigurður að mestu einbeitt sér að kórverkum án undirleiks. Þá hefur hann samið orgelverk fyrir organistann James D. Hicks; annars vegar Himna smiður, sem byggt er á sálmi Þorkels Sigurbjörnssonar, og sömuleiðis verk sem byggt er á Requiem eftir Jón Leifs. Það verður frumflutt í sumar. 

English:

Closing concert of the Festival of Sacred Arts. Orchestral and choral fireworks in three of Bach’s cantatas performed on period instruments, and the première of a new cantata, Veni, Sancte Spiritus, by Icelandic composer Sigurður Sævarsson.