Hátíðartónleikar með Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrímskirkju

Um viðburðinn

Alþjólega barokksveitin í Hallgrímskirkju, sem er skipuð afburða hljóðfæraleikurum frá ýmsum löndum auk nokkurra Íslendinga flytur glæsilega hátíðartónlist fyrir óbó, trompeta, pákur og strengi, meðal annars hina þekktu Hljómsveitarsvítu í h-moll eftir Johann Sebastian Bach, þ.s. Georgia Browne flautuleikari frá Ástralíu leikur flautueinleikinn. Konsertmeistari er Tuomo Suni frá Finnlandi. Hljómsveitin hefur undantekningarlaust fengið frábæra dóma fyrir leik sinn og hefur átt ómetanlegan þátt í að kynna flutningsmáta upprunastefnu og hljóðfæri barokktímans hér á landi.

EFNISSKRÁ:
Georg Philipp Telemann (1681–1767) Ouverture í D-dúr, TWV 55:D18
Johann Sebastian Bach (1685–1750) Einleikari: Georgia Browne flauta
Svíta nr. 2 í h-moll, BWV 1067 Ouverture Rondeau Sarabande Bourrée Polonaise Menuet Badinerie
Antonio Vivaldi (1678–1741) Konsert í g-moll, RV 157 Allegro Largo Allegro
Georg Philipp Telemann Svíta í D-dúr (valið úr TWV 55:D12, TWV 55:D18, TWV55:D12 og TWV55:D4)
Ouverture Menuet Sarabande Perpetuum mobile Air Serieusement Passacaille 

Fyrsta verkið á efnisskrá þessara tónleika er Forleikur í D-dúr eftir Georg Philipp Telemann. Forleikurinn byrjar eins og barokkforleikir í frönskum stíl eiga að hefjast, hægt og virðulega, eins og skrautklæddar persónur þokist hægt niður flúraðan stiga og krefjist athygli okkar. Áður en langt um líður er skrúðgöngu þeirra lokið (höldum við) og kapphlaup trompeta hefst sem hefur mjög ákveðna stefnu á mikinn fögnuð. En viti menn, trompetakapphlaupinu lýkur og við erum aftur stödd í skrúðgöngu skrautklæddu persónanna, en þá helga trompetarnir sér aftur sviðið og vilja koma á framfæri hinni fagnandi gleði sem lofað var, en á endanum eru það hinir skrautklæddu sem fá að ljúka prósessíunni. Stundum liggja menn Telemann á hálsi fyrir sköpunargleðina en hann mun hafa samið liðlega 3.600 tónverk, sem gerir Telemann að einu afkastamesta tónskáldi mannkynssögunnar. Svo gríðarlegt var umfangið að menn eru enn þá að vinna úr flóðinu, rúmum 250 árum eftir lát hans. Telemann var ekki sérlega stirt um stef því að einu sinni mun hann hafa samið kantötu í fullri lengd á klukkutíma, jafnóðum og hirðskáld nokkurt orti upp úr sér og hripaði ljóðlínur sínar á blað. Að þessu voru vitni svo að þetta er engin flökkusaga. Svo frægur var Telemann að borgaryfirvöld í Leipzig vildu engan frekar í embætti Tómasarkantors þegar Johann Kuhnau dó. Telemann sló úr og í, en fékk að lokum launahækkunina sem hann krafðist í Hamborg og hætti við allt saman. Þegar annar besti umsækjandinn hætti líka við og allt stefndi í óefni ákvað borgarstjórn í Leipzig, með semingi, að veita þriðja besta umsækjandanum embættið. Sá þriðji besti umsækjandi hét Johann Sebastian Bach, og eftir hann er næsta verk, Hljómsveitarsvíta nr. 2 í h-moll, BWV 1067. Hljómsveitarsvítur Bachs eru fjórar talsins og byggðar á svítuformi sem var afar vinsælt á 17. og 18. öld. (Varðveittar eru 135 slíkar svítur eftir Telemann, hann samdi samt miklu fleiri sem glötuðust!) Slík svíta hófst á forleik í frönskum stíl sem áður er lýst; hægt og virðulegt upphaf, síðan fjörleg fúga og loks minnt á upphafsstefið á ný. Að því loknu fylgdu í röð nokkrir þættir í danstakti sem miðaðist við þá dansa sem vinsælastir voru meðal franskra aðalsmanna. Þarna þekkjum við sarabönduna, sem barst líklega vestan úr Ameríku til Spánar á 16. öld, við berum kennsl á pólónesuna, sem kennd er við ættjörð sína Pólland, og þarna er líka menúettinn, hið franskasta af öllu frönsku. Þótt þessi hljómsveitarsvíta hljómi alvarlega og formlega í nútímaeyrum okkar, þá leit Bach samt á hana sem skemmtitónlist. Hann hafði ekkert á móti skemmtitónlist, sem gaf stundum vel í aðra hönd, en hann flíkaði sjaldnast þeim verkum sínum sem hann flokkaði á þann hátt. Meðal annars þess vegna kom þessi svíta aldrei út á nótum meðan hann lifði. Í svítunni er áberandi einleikspartur fyrir þverflautu (flûte traversière), sem á tíma Bachs var nýstárlegt hljóðfæri, því að áður höfðu menn haldið á flautu beint niður úr munninum, en á þverflautu héldu menn lárétt svo að vissi út á hlið. Í þeim skilningi er svítan nokkurs konar tilraunaverk. Frægasti þáttur hennar er sá síðasti, Badinerie, sem er franska og gæti merkt gamanlæti eða sprell, þótt tóntegundin, h-moll, miðli frekar upphöfnum alvarleika fremur en ærslum. Þessi mollkenndu ærsl birtast fremur í því hversu hratt og leikandi er spilað, enda er þessi þáttur ögrandi viðfangsefni fyrir hvaða flautuleikara sem er. Bach tók oft mið af franskri tónsmíðahefð í verkum sínum, en hann var líka mjög hallur undir ítalska skólann, hinn fjörlega, létta og káta, sem Bach lærði mikið af og nýtti sér á sinn hátt. Lærdóm sinn stundaði hann meðal annars með því að dunda sér við að umrita konserta eftir Antonio Vivaldi fyrir orgel, en Vivaldi á einn konsert á efnisskránni á þessum tónleikum, stutt verk fyrir strengjasveit sem hefst eins og tregróf en endar eins og mildilegur reiðilestur. Tónleikunum lýkur síðan á verki sem sett er saman úr fjórum mismunandi svítum eftir Telemann, en þar eru hæg heimatökin að velja eitthvað úr þeim 135 svítum sem hafa varðveist eftir hann. Svo er aldrei að vita nema einhverjar af hinum 850 sem hafa glatast komi í leitirnar einn góðan veðurdag, sem yki úrvalið stórkostlega.

English:

A veritable smorgasbord of wonderful baroque music by luminaries Telemann, J.S. Bach and Vivaldi, including Bach’s famous Orchestral Suite No. 2 in B minor, BWV 1067. Played on period instruments by the Hallgrímskirkja International Baroque Orchestra, which consists of first-rate musicians from around the world.