Æfing 50 ára - Lokadagstónleikar í Bæjarbíói

Um viðburðinn

Hljómsveitin Æfing frá Flateyri fagnar 50 ára afmæli með lokadagstónleikum í Bæjarbíói Hafnarfirði laugardaginn 11. maí kl: 20:30.

Það bar til þann 27. desember 1968 að hljómsveitin Æfing á Flateyri kom fram í fyrsta sinn á fundi Verkalýðsfélagsins Skjaldar í Samkomuhúsinu á Flateyri. Í hljómsveitinni voru: Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson, Sigmar Ólafsson, Eiríkur Mikkaelsson og Gunnlaugur Mikkaelsson.

Hljómsveitin Æfing starfaði á tveimur tímaskeiðum þ.e. á Flateyri frá 1968 og fram yfir 1980 og lék þá á dansleikjum um alla Vestfirði og reyndar víðar um land. Meðlimir Æfingar á þessu tímabili voru allmargir en Árni Benediktsson og Kristján J. Jóhannesson voru með alla tíð.

Seinna tímabilið er frá 1990 og þá bæði á samkomum sem Önfirðingafélagið í Reykjavík kom að með einum eða öðrum hætti og við önnur sérstök tækifæri, s.s. afmæli, brúðkaup og útgáfutónleika.

Í hljómsveitinni Æfingu á þessu tímabili hafa verið:

Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson,
Sigurður Björnsson, Jón Ingiberg Guðmundsson,
Ásbjörn Björgvinsson, Halldór Gunnar Pálsson,
Önundur Hafsteinn Pálsson auk Óskars Þormarssonar
og Magnúsar Magnússonar.

Árið 2013 ákváðu félagarnir í Æfingu að taka upp disk sem fékk nafnið: Æfing - fyrstu 45 árin.

Meðal laga á þessum diski Æfingar eru: "Fínn kall kellingin hans", "Kem eftir rétt strax", "Allabúð", "Púki að Vestan" og "Heima er best"

Meðlimir Æfingar á þessum tímamótatónleikum eru:

Árni Benediktsson - Gítar - Söngur
Sigurður Björnsson (Siggi Björns) - Gítar - Söngur
Ásbjörn Björgvinsson - Bassi - Söngur
Jón Ingiberg Guðmundsson - Gítar - Söngur
Halldór Gunnar Pálsson - Gítar - Söngur
Óskar Þormarsson - Trommur