Þuríður Sigurðardóttir í Bæjarbíói

Um viðburðinn

Ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar mun stíga á svið í Bæjarbíói í Hafnarfirði, sumardaginn fyrsta þann 25. Apríl og þann 26. apríl og fagna stórafmælum í lífi og söng með tónleikum.

Þuríður Sigurðardóttir, eða Þura eins og hún er kölluð, fékk myndlistina úr móðurættinni og tónlistina úr föðurættinni. Móðir hennar var Inga Valfríður Einarsdóttir, ætíð kölluð Snúlla, systir Guðmundar Einarssonar, sem var myndlistarmaður, myndhöggvari, leirlistarmaður og landsfrægur útivistarmaður. Sigurður Ólafsson faðir hennar var söngvari og margir úr hans ætt hafa helgað sig tónlist. Þuríður gat einfaldlega ekki flúið listina og varð hreinlega að sinna tónlist og myndlist. Foreldrar Þuru voru landsþekktir hestamenn og áttu verðlaunagæðinga. Þura hefur fylgt þeirra fordæmi hvað hestamennskuna varðar og meira að segja notað litarhaft hrossa í myndlistinni.  

Þura hefur aldrei setið auðum höndum og ekki látið neitt stöðva sig. Hún hefur komið víða við eins og hægt er að glöggva sig á með því að lesa það sem hér fer á eftir. 

Svo merkilega vill til að Þura varð landsþekkt söngkona sextán ára gömul þegar hún söng með einni vinsælustu hljómsveit landsins, Lúdó sextetti. Stuttu seinna var hún fastráðin í húshljómsveitina á skemmtistaðnum Röðli, sem Magnús Ingimarsson stjórnaði. Hann var með reglulega útvarpsþætti sem hljómsveitin tók þátt í að gera og kom einnig fram í sjónvarpi allra landsmanna. 

Þegar Þura var tvítug hafði hún verið atvinnusöngkona í nokkur ár, sungið inn á hljómplötur, komið fram í útvarpi og sjónvarpi og staðið á sviði og sungið fyrir fólk nærri 300 sinnum á ári. 

Þegar hún var 25 ára hafði hún gert tvær stórar plötur með Pálma Gunnarssyni, sungið inn á plötu með föður sínum Sigurði Ólafssyni, starfrækt hljómsveitina Islandia og verið flugfreyja hjá erlendu flugfélagi. 

Þegar hún var þrítug hafði hún sungið með hljómsveitum Jóns Páls Bjarnasonar og Ragnars Bjarnasonar og sungið inn á plötu með Ragnari Bjarnasyni. Hún átti eitt hjónaband að baki og var gift í annað sinn og hafði unnið í verslun. 

Þegar Þura var 35 ára hafði hún starfað við auglýsingaþjónustu, eignast seinni son sinn, byggt einbýlishús og prófað að vera “bara” húsmóðir í Garðabæ, sungið með hljómsveit Gunnars Þórðarsonar í veitingahúsinu Broadway og sungið með Sumargleðinni. Þegar hún var fertug hafði hún tekið þátt í Þórskabarettinum, verið flugfreyja hjá Arnarflugi, sungið með hljómsveit Árna Scheving á Mímisbar Hótel Sögu og tekið þátt í dægurlagahátíð undir stjórn Ingimars Eydal á Broadway. 

Þegar hún var 45 ára hafði hún verið í stjórn Ísflugs, verið fastráðin útvarpskona á Aðalstöðinni, sungið með hljómsveitinni Vanir menn, verið flugfreyja hjá Atlanta og tekið þátt í pílagrímaflugi í Saudi-Arabíu. Þegar Þura var fimmtug hafði hún farið jóðlandi á hestbaki um landið, starfað í útvarpi Umferðarráðs, verið þula í sjónvarpi allra landsmanna, RÚV og stundað nám á listabraut Fjölbrautarskólans í Breiðholti og byrjaði í myndlistarnámi í Myndlistar- og handíðaskólanum. 

Þegar hún var 55 ára var hún útskrifuð með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands og haslaði sér völl sem listmálari og sótti rímnanámskeið til að nema þau fornu fræði. Þegar Þura var sextug starfaði hún sem kennari í málun, sinnt myndlistinni, rekið STARTART listasal og verslun með hópi listafólks auk þess að syngja opinberlega þegar svo bar undir. 

Þegar Þuríður var 65 ára hafði hún haldið fjölda málverkasýninga og tekið þátt í tónleikahaldi með hinum og þessum. Hún hélt upp á afmælið með vel heppnuðum tónleikum í Salnum og það má segja að hún endurtaki leikinn að þessu sinni í tilefni þess að hún varð sjötug í janúar. Hún fer í gegnum söngferilinn frá fyrstu tíð til þessa dags og dregur fram ótalmargar perlur sem hafa fylgt henni í gegnum tíðina.

Góða skemmtun.         

Árið 1969 kom út fyrsta sólóplata Þuríðar með lögunum “Ég á mig sjálf” og “Ég ann þér enn” og þar með skrifaði hún sig inn í þjóðarsálina og var í framhaldi valin söngkona ársins í vinsældarkosningum og platan “hljómplata ársins”. Á söngferlinum hefur Þuríður sungið með helstu tónlistarmönnum þjóðarinnar og árið 1981 var hún heiðruð á Stjörnumessu sem söngkona ársins í 15 ár.

Hljóðfæraleikarar:
Pálmi Sigurhjartarson,
Benedikt Brynleifsson,
Gunnar Hrafnsson,
Grímur Sigurðsson
og Hjörleifur Valsson  

Gestasöngvari:
Sigurður Helgi Pálmason

25. APRÍL - UPPSELT 
26. APRÍL - AUKATÓNLEIKAR KOMNIR Í SÖLU