Svavar Knútur í Bæjarbíói

Um viðburðinn

Söngvaskáldið Svavar Knútur blæs til veglegra tónleika í Bæjarbíó í Hafnarfirði 9. maí næstkomandi. Á tónleikunum mun Svavar Knútur flytja fjölda laga frá ferli sínum auk laganna af nýjustu plötu sinni, Ahoy! Side A. Þetta verða fyrstu tónleikarnir þar sem útgáfu Ahoy! Side A verður sérstaklega fagnað og lög hennar spiluð með hljómsveit.

Svavar Knútur hefur undanfarinn áratug farið vaxandi sem listamaður og gefið út fjölda platna, sem bæði halda einstökum stíl hans og þroskast í senn. 

Svavar Knútur verður ekki einn á ferð, því með í ferð þetta kvöld verður fullskipuð hljómsveit og gestasöngvarar sem munu taka lagið með honum. Aðdáendur hins einmana förusöngvara þurfa ekki að kvíða, því fyrri hluta tónleikanna verður Svavar Knútur einn á ferð með kassagítarinn og nokkrar sögur.