Jón Jónsson

Um viðburðinn

Uppselt á augabragði á tónleikana 21.12 kl. 20:00. Tvennir aukatónleikar komnir í sölu. Takk fyrir geggjaðar viðtökur! Hinir árlegu stórtónleikar Jóns Jónssonar fara fram í Háskólabíói fimmtudagskvöldið 20. og föstudagskvöldið 21. desember í samstarfi við Egils Malt&Appelsín. Jón hefur haldið tónleika í aðdraganda jóla síðan 2013 en eftir ferna uppselda tónleika í Bæjarbíói Hafnarfirði í fyrra er kominn tími á að prufa stóra sviðið.

Allt árið um kring spilar Jón úti um hvippinn og hvappinn með gítarinn sér til halds og trausts en þegar styttist í hátíð ljóss og friðar nýtur Jón fulltingis hljómsveitar sinnar, blásara og bakradda til að spila lögin í sinni stærstu mynd. 

Jón hefur verið iðinn við kolann það sem af er ári og sent frá sér lögin Lost, Dance with your heart og Með þér og ásamt bróður sínum, Friðriki Dór, hlóð hann í Þjóðhátíðarlögin Á sama tíma, á sama stað og Heimaey. Það verður að teljast líklegt að þau fái að óma þetta föstudagskvöldið í bland við eldri slagara, að ógleymdri 8 ára ábreiðunni af Snjókorn falla. 

„Það eru forréttindi að fá að flytja lögin mín í sinni stærstu mynd árlega, rétt fyrir jólin. Ég er svo þakklátur öllum þeim sem hafa mætt undanfarin ár og hlakka til að sjá þau á nýjan leik og vona auðvitað að ný andlit bætist í hópinn,“ sagði Jón Jónsson aðspurður um tónleikana.