Glymskrattinn

Um viðburðinn

Glymskrattinn
Danstónleikar í Þjóðleikhúskjallaranum

Þjóðleikhúskjallaranum verður breytt í rafmagnaðan danstónleikastað í þessu nýja íslenska sviðverki.

Glymskrattinn leggur sig í líma við að bregða nýju ljósi á sviðsframkomu og þekkt dansspor í poppkúltúr samtímans í kraftmikilli og nýstárlegri leikhúsupplifun sem vindur fram á jafnvægisslá tónleika og dans. Glymskrattinn er danstónleikar þar sem báðir miðlar eru í forgrunni en það er Valdimar Jóhannsson tónlistarmaður í Reykjavík!, Lazyblood og 9/11 sem vinnur að verkinu ásamt dönsurunum og danshöfundunum Melkorku Sigríði Magnúsdóttur og Sigríði Soffíu Níelsdóttur.

Melkorka Sigríður og Sigríður Soffía hafa getið sér gott orð hérlendis og erlendis sem kraftmiklir og áræðnir dansarar og danshöfundar. Melkorka hefur unnið með dansflokkunum Ultima Vez, Íslensku Hreyfiþróunarsamsteypunni og John the Houseband. Sigríður Soffía hefur unnið með Shalala, dansflokki Ernu Ómarsdóttur og samið verk fyrir Silesian Dance Theater, Íslenska dansflokkinn o.fl. Sigríðarnar tvær leiða nú saman póníhesta sína í fyrsta sinn í þessu spennandi verkefni. Þeim til fulltingis eru tónlistarmaðurinn Valdimar Jóhannsson, leikmyndahönnuðurinn Brynja Björnsdóttir og stílistinn Ellen Loftsdóttir.

Verkefnið er styrkt af Evrópu unga fólksins, er í samstarfi við Þjóðleikhúsið og sýnt á Listahátíð.