Bríet

Um viðburðinn

Dansverkið Bríet er samið til heiðurs Bríeti Bjarnhéðinsdóttur kvenréttindakonu.

Verkið er byggt á ævi Bríetar en innblásturinn hefur mest megnis verið sóttur í hennar persónulegu sögur, auk heimilda um afrek hennar innan kvenréttindabaráttunnar.

Höfundur verksins er Anna Kolfinna Kuran í samstarfi við hópinn.

Notast er við hreyfingar, tónlist, texta og söng til að miðla túlkun hópsins á Bríeti.

Hópurinn samanstendur af sex fagkonum úr sviðslistageiranum. Verkefninu er stýrt af danshöfundi hópsins Önnu Kolfinnu Kuran sem á einnig hugmyndina að verkinu. Þetta er í fyrsta sinn sem hópur þessi starfar saman en innbyrðis eru ólík persónuleg og fagleg tengsl. 

Sköpunarvinnan fór fram á faglegan hátt þar sem öllum þátttakendum verkefnisins var gefið færi á að koma skoðunum og hugmyndum sínum á framfæri. Unnið var lauslega eftir handriti en þátttakendur höfðu frelsi til að vinna með handritið út frá þeirra eigin hugmyndum um verkið. 

Flytjendur: Anna Kolfinna Kuran, Esther Talía Casey, Gígja Jónsdóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir
Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger
Tónlist: Vala Gestsdóttir