When I Die

Um viðburðinn

Eftirfarandi saga er sönn: Rosemary Brown var ekkja og tveggja barna móðir, búsett í suðurhluta Lundúna. Í nóvember árið 1964 sótti vofa tónskáldsins Franz Liszt hana heim og spurði hvort hún gæti ekki sett niður á blað fáeinar tónsmíðar sem honum hafði ekki auðnast að ljúka við í lifanda lífi? Frú Brown – sem að vísu var ekki tónlistarmenntuð – brást ljúflega við beiðni hans. Skömmu síðar birtist Johann Sebastian Bach með samskonar beiðni sem frú Brown gat einnig orðið við – og í kjölfarið birtust þeir Johannes Brahms, Sergei Rachmaninoff, Edward Grieg, Claude Debussy, Robert Schumann og Ludwig van Beethoven (John Lennon og Albert Einstein létu líka á sér kræla). Næstu árin fór frú Brown á fætur klukkan hálfsjö á hverjum morgni, borðaði morgunverð og tók á móti látnum tónskáldum frá átta til tvö og síðdegis frá klukkan þrjú til sex. Með þessum hætti auðgaðist heimurinn meðal annars um fjörutíu síðna sónötu og tólf sönglög eftir Schubert, fantasíu eftir Chopin, tvær sónötur eftir Beethoven auk þess sem Rosemary landaði tíundu og elleftu symfóníu tónskáldsins! 

Í þessari undursamlegu og bráðfyndnu leiksýningu dustar svissneski leikstjórinn og tónlistarmaðurinn Thom Luz rykið af nótunum sem frú Brown lét eftir sig. Útkoman er skemmtikvöld með afturgöngum, þremur tónlistarmönnum, leikara og leikkonu. Frábær sýning eftir einn eftirtektarverðasta sviðshöfund í þýskumælandi leikhúsi!