Leg - Söngleikur

Um viðburðinn

Frúardagur, leikfélag Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík kynnir framtíðina. Stórfyrirtæki og raunveruleikasjónvörp ráða ríkjum, grasið er horfið og Ísland hýsir óhamingjusömustu þjóð heims. Kvensjúkdómalæknar eru ofurhetjur, ebóla grasserar, enginn hlustar á tilfinningar og neyslan er æðsta dygðin. 

Leg er söngleikur eftir Hugleik Dagsson sem gerist í Garðabæ í náinni framtíð. Hann fjallar um Kötu, 19 ára gelgju sem lendir í því að þægilegur silfurskeiðarveruleiki hennar hrynur á einu sólríku eftirmiðdegi. Þar með hefst ævintýraleg leit hennar að nýju sjálfi þar sem hún kynnist ýmsum kynlegum verum, forstjórum, þáttastjórnendum, félagsráðgjöfum og barnapössunarsjálfssölum.

Frúardagur er nýtt leikfélag í Menntaskólanum í Reykjavík. Það var stofnað árið 2010 en setur nú upp sína allra fyrstu stórsýningu. Leg var frumflutt í Þjóðleikhúsinu 2007 við gríðarlegar vinsældir, sem dæmi hefur tónlist söngleiksins, samin af tríóinu Flís, öðlast sjálfstætt líf eftir að sýningum lauk. Leg var tilnefnt til 12 Grímuverðlaunanna, þar á meðal sem sýning ársins og hlaut verðlaunin eftirsóttu fyrir tónlist og búninga. 

Verkefnið er algerlega í höndum fjölbreytilegs hóps MR-inga en um 70 nemendur koma að sýningunni sem leikarar, útlitshönnuðir, dansarar, hljómsveit, förðunarteymi og fleira. Þessir dugmiklu nemendur hafa lagt sig alla fram til þess að koma þessari mögnuðu sýningu Frúardags á fót. 

Söngleikurinn er í leikstjórn Arnórs Gunnars Gunnarssonar og Birnis Jóns Sigurðssonar, en þeir eru stofnendur félagsins. 

Leg er troðfullt af orku og sprenghlægilegt verk sem inniheldur lifandi tónlist.

Leg er söngleikur sem enginn má láta fram hjá sér fara