Coming Up

Um viðburðinn

Dansverk um leitina að hápunktinum

Tveir danshöfundar ætla sér að skapa dansverk með fullkomnum hápunkti. Þegar á hólminn er komið eiga þeir erfitt með að dansa í takt, dansspor eru skilin eftir í lausu lofti, ein uppbygging tekur við af annarri, nýjar hugmyndir breyta stöðugt atburðarásinni og allar tilraunir til að skapa hinn fullkomna hápunkt renna út í sandinn. Í öllum hamaganginum týnist hið ógleymanlega augnablik. Eftir standa hönd í hönd hið risastóra og hið smávægilega, hið venjulega og hið mikilfenglega, antí-klímaxinn og klímaxinn.

Coming Up er samstarf tveggja danshöfunda og dansara, þeirra Katrínar Gunnarsdóttur og Melkorku Sigríðar Magnúsdóttur. Verkið var frumsýnt árið 2013 í Tjarnarbíó og fékk frábærar viðtökur bæði áhorfenda og gagnrýnenda. Coming Up hlaut grímuverðlaunin 2013 í flokknum "danshöfundar ársins" og þá var verkið tilnefnt til menningarverðlauna DV. Coming up hefur verið sýnt á hátíðum víða í Evrópu. Sýningin er styrkt af menntamálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg og er í samstarfi við Dansverkstæðið.

"Frábær danssýning" (VG - Reykvélin)

"Með þetta áhugaverða umfjöllunarefni, færa listamenn og helling af húmor, gekk verkið nánast fullkomlega upp...Coming Up ögrar hugmyndum um hefðbundna uppbyggingu verka og kemur þannig sífellt á óvart" (ÁRJ-Víðsjá)  

Nú er einstakt tækifæri til að sjá þessa rómuðu sýningu aftur í Tjarnarbíó. Aðeins tvær sýningar!