Hrekkjusvín

Um viðburðinn

Glænýr íslenskur gamansöngleikur lítur nú dagsins ljós byggður á hinni sívinsælu hljómplötu Lög unga fólksins með hljómsveitinni Hrekkjusvín.

Árið 1977 leiddu saman hesta sína tvær af vinsælustu hljómsveitum áttunda áratugarins, Spilverk þjóðanna og Þokkabót. Afraksturinn varð platan Lög unga fólksins sem af mörgum er talin ein af bestu plötum sem gefnar hafa verið út hérlendis en allir aldurshópar geta haft gaman af henni. Þótt textarnir séu yfir þrjátíu ára gamlir þá er innihald þeirra glettilega "aktúelt" og þeir lýsa á frumlegan og skemmtilegan hátt þjóðfélagsástandi sem á margt sameiginlegt með okkar tíma.

Leikurinn gerist að mestu handan móðunnar miklu þar sem loftkastalasmiðurinn Jóhann Kristinsson heitinn fær tækfæri til að líta yfir farinn veg og skoða misgjörðir sínar með iðrunina að leiðarljósi svo meta megi hver framtíðarvist hans verði, hvort hann fari „upp“ eða „niður“. Jóhann er leiddur í gegnum valda kafla úr lífi sínu og hittir þar fyrir fjölskyldu, vini og annað samferðafólk og upplifir aftur með því grátbroslegar stundir sem hann hefði í mörgum tilfellum viljað að væru gleymdar en ekki geymdar. En hver endastöð Jóhanns verður getur verið snúið að meta þar sem hann er sannur íslenskur bragðarefur og vanur að fara sínar eigin leiðir hvort sem hann er lífs eða liðinn...

Tónlistarstjóri er Valgeir Guðjónsson. Leikstjórn María Reyndal. Verkið er byggt á söngtextum Péturs Gunnarssonar en handritið skrifuðu Guðmundur S. Brynjólfsson, Sveinn Geirsson og Tinna Hrafnsdóttir með dyggri aðstoð leikstjóra og leikhóps.

Leikarar eru Atli Þór Albertsson, Hannes Óli Ágústsson,  María Pálsdóttir, María Heba Þorkelsdóttir, Orri Huginn Ágústsson, Sveinn Geirsson, Tinna Hrafnsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir.  Með þeim á sviðinu verður fimm manna hljómsveit sem Valgeir Guðjónsson leiðir.