Thriller

Um viðburðinn

Menntaskólanemar hafa almennt nokkuð sterkar skoðanir á hlutunum en finnst kannski ekki alltaf hlustað á þá. Verkið Thriller fjallar um krakka í menntaskóla sem eru að reyna að eiga þessi “bestu ár lífs síns” sem þeim er ítrekað sagt að þetta séu. Gallinn er að þar sem skólatíminn hefur verið styttur í þrjú ár (án þess að það hafi verið rætt sérstaklega við þau) en námsefnið hefur ekki minnkað, þá eiga þau í vandræðum með að njóta tímans. Álagið við að ná öllu á þremur árum sem nemendur sem komu á undan þeim gerðu á fjórum er að buga þau. Í bland við það eru þau svo að sjálfsögðu að eiga við ýmis mannleg verkefni eins og að móta sig sem sjálfstæða einstaklinga, leysa úr flækjum ástarlífsins, finna út úr áskorunum félagslegrar mótunar, persónuþroska og kynhneigð sína… og allt þetta á tímum snjallsíma og samfélagsmiðla. Já, það er svo einfalt þetta líf.

Í Thriller, verki Leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum fáum við að skyggnast inn í heim framhaldsskólanema árið 2019 í skemmtilega ýktri útgáfu. Við vonum að þið heyrið hvað við erum að segja þó við gerum það á gamansaman hátt.

Sumar persónur og atvik þessarar sögu hafa skírskotun í raunveruleikann en hafa þó verið færð í stílinn í þágu listsköpunar og skemmtanagildi verksins.