Evrópukeppni landsliða 2013

Um viðburðinn

Evrópukeppni landsliða í körfu 2013
Laugardalshöll

14. ágúst Ísland – Serbía, kl 20:00
21. ágúst Ísland – Ísrael, kl 19:15
27. ágúst Ísland – Eistland, kl 19:15
02. september Ísland – Slóvakía, kl 15:45
08. september Ísland – Svartfjallaland, kl 15:45

Miðaverð

Stakir miðar:
16 ára og eldri: 1.500 kr
15 ára og yngri: Frítt

ÁFRAM ÍSLAND!

Serbía. Íslenska landsliðið tekur á móti Serbíu, einu sterkasta landsliði sem komið hefur til landsins. Serbneska landsliðið hefur verið meðal sterkustu þjóða í körfubolta á heimsvísu undanfarin ár. Landslið þeirra er að stórum hluta skipað sömu leikmönnum og sló út lið Spánverja í 8-liða úrslitum og lék um bronsið á síðasta heimsmeistaramóti árið 2010. Síðastliðið haust léku liðið lokakeppni EM í Litháen.

Í liði Serbíu er besti evrópski leikmaður ársins 2010, Milos Teodosic, leikmaður CSKA Moscow. Að auki má nefna leikmenn eins og Nenad Kristic sem hefur leikið í mörg ár í NBA deildinni, m.a. með Boston Celtics. Hann leikur í dag með CSKA Moscow og Dusko Savanovic. Þjálfari liðsins er  einn sigursælasti þjálfari Evrópu fyrr og síðar Dusan Ivkovic sem hefur unnið allt með félagsliðum og landsliði Júgóslavíu og seinna Serbíu á ferlinum.

Svartfjallaland. Lið Svartfjallalands þekkjum við að hluta, en liðið var með Íslandi í riðli síðast þegar Ísland tók þátt í Evrópukeppninni. Liðið er skipað frábærum leikmönnum og þar ber helst að nefna hinn stóra og öfluga miðherja Nikola Pekovic sem leikur með Minnesota Timberwolves í NBA-deildinni, en hann átti frábært tímabil í vetur með þeim. Svartfjallaland sigraði í undankeppninni 2009 og vann sér sæti í lokakeppninni í Litháen 2011.

Ísrael. Með ísraelska liðinu leikur Omri Casspi, leikmaður Cleveland Cavaliers en hann var upprunalega valinn af Sacramento Kings í NBA-nýliðavalinu og er hann þeirra helsta stjarna. Ísraelska liðið lék í lokakeppni EM2011 í Litháen þar sem liðið hafnaði í 13. sæti. Lior Eliyahu sem var valinn af Houston Rockets var stigahæstur liðsins í lokakeppninni í Litháen 2011. Hann leikur með Maccabi Tel Aviv sem er eitt besta félagslið Evrópu.

Eistland er með nokkuð ungt lið en talsverð endurnýjun hefur átt sér stað innan liðsins. Eistar unnu sinn riðil í B-deildinni í fyrra en liðið var með Hollandi, Austurríki og Luxemborg í riðli. Þeirra besti maður í keppninni var framvörðurinn Janar Talts. Bræðurnir Tanel Sokk og Sten Sokk eru synir goðsagnarinnar Tit Sokk sem var leikstjórnandi sovéska landsliðsins sem var sigursælt á árum áður.

Slóvakía var líkt og Eistland í B-deild í fyrra áður en keppnisfyrirkomulaginu var breytt. Liðið vann 3 leiki og tapaði 3 en það var í riðli með Tékklandi, Sviss og Kýpur. Þeirra helsti leikmaður er Anton Gavel, leikstjórnandi sem einnig getur skorað. Anton leikur með Brose Baskets í þýsku Bundesligunni og varð lið hans meistari á dögunum. Martin Rancik er annar leikmaður sem vert er að hafa í huga en hann lék m.a. með Iowa State háskólanum á sínum tíma og fór m.a. með liðinu í 8-liða úrslit háskólaboltans. Martin hefur leikið í efstu deildum á Ítalíu, Spáni og Grikklandi.