YOKO ONO PLASTIC ONO BAND

Um viðburðinn

Yoko Ono Plastic Ono Band
Háskólabíó 9. október 2010

Listakonan, tónlistarkonan og friðarsinninn Yoko Ono mun koma fram á einstökum tónleikum á Íslandi með hljómsveitinni Yoko Ono Plastic Ono Band í Háskólabíói laugardagskvöldið 9. október n.k. til að minnast þess að John Lennon hefði orðið sjötugur þann dag.

Fyrr um daginn mun Yoko Ono afhenda LennonOno friðarverðlaunin í Höfða og stuttu áður en kvöldstundin í Háskólabíói hefst verður ljósið tendrað á friðarsúlunni í Viðey.

Yoko Ono og Sean Ono Lennon endurlífguðu Plastic Ono Band á síðasta ári eftir 40 ára hlé með útgáfu plötunnar "Between My Head and the Sky". Plastic Ono Band er einna best þekkt fyrir sína fyrstu útgáfu, "Give Peace a Chance", sem kom út 1969 með John Lennon innanborðs.

Nýja platan "Beetwen My Head and the Sky" hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og meðal annars fengið 4 og 5 stjörnur í tónlistarmiðlunum Rolling Stone, Mojo, Spin, Uncut, Q, NME, Nylon og Pitchfork.

Á tónleikunum í Háskólabíói kemur Yoko Ono fram með hinu nýja Plastic Ono Band sem er undir tónlistarstjórn Sean Ono Lennon. Bandið skipa, auk Yoko og Sean, japanska tónlistarfólkið Haruomi Hosono (Yellow Magic Orchestra), Yuka Honda (Cibo Matto) og Keigo Oyamada, Shimmy Hirotaka Shimizu og Yuko Araki (Cornelius).

Í febrúar hélt Yoko Ono tónleika með hinu nýja Plastic Ono Band ásamt gestum í Brooklyn Academy of Music sem seldust upp á augabragði. The New York Times lýsti þeim tónleikum sem "... Ghostly, Furious, Dreamy, Caustic, Urgent, Exultant, Orgasmic." og MTV kallaði þá "Historic and Genius".

Áður en Yoko Ono Plastic Ono Band kemur fram í Háskólabíói að kvöldi 9. október munu þau koma tvisvar fram í Orpheum Theater í Los Angeles 1. og 2. október n.k.

Yoko Ono hefur ákveðið að ánafna allan afrakstur aðgöngumiðasölu á tónleikana til stuðnings góðs málefnis á Íslandi, sem nánar verður tilkynnt um er nær dregur.

Tónleikar Yoko Ono Plastic Ono Band eru haldnir í samvinnu við Reykjavíkurborg.