Sirkus Íslands - Tjaldar öllu til

Um viðburðinn

Heima er best - Stóra fjölskyldusýningin

Heima er best er alíslensk sirkusskemmtun þar sem öll fjölskyldan nýtur þess að horfa á ótrúlega leikni listamanna Sirkuss Íslands. Sýningin er tveir tímar með kortérs hléi og hentar öllum frá 5 ára aldri og þolinmóðum yngri krökkum. Grippl, húlla, loftfimleikar, einhjólalistir og svo margt fleira er sett saman svo úr verður sannkölluð sirkusupplifun, með öllu sem tilheyrir sirkustöfrunum. Öll tónlistin sem notast er við í sýningunni er íslensk svo útkoman er heimaræktaður íslenskur sirkus af bestu gerð.

Heima er best er fjórða og stærsta fjölskyldusýning Sirkuss Íslands og sú fyrsta sem sniðin er fyrir og sett upp í alvöru sirkustjaldi.

Skoða nánar sýningartíma
Kaupa miða á Heima er best

S.I.R.K.U.S. - Fjörug sýning fyrir yngstu áhorfendur

Sýningin er sett saman með yngri börnin í huga en þó ekki á kostnað eldri áhorfenda. Hún er klukkutími og er miðuð við leikskólaaldur. Ýmsar litríkar persónur sem börnin þekkja geta birst á sviðinu og jafnvel tekist á loft – og bófi reynir að stela senunni. Sýningin er skemmtilegt samkrull sirkusatriða úr öllum áttum svo úr verður ógleymanleg skemmtun.

Skoða nánar sýningartíma
Kaupa miða á S.I.R.K.U.S.

Skinnsemi - Fullorðinssirkus, bannaður börnum

Það er fátt skynsamlegt við Skinnsemi. Skinnsemi er kabarettsýning með sirkusívafi –

þar sem lagt er upp úr fullorðinshúmor og stundum sýnt smá skinn. Sýningin er 90 mínútur og er bönnuð innan 18 ára. Sirkusinn hefur vínveitingaleyfi á þessum sýningum.

Fyndið, fullorðins, frábært.

Skoða nánar sýningartíma
Kaupa miða á Skinnsemi

Sirkusinn verður staðsettur á eftirfarandi stöðum á eftirfarandi tímum:

Reykjavík - 25. júní - 13. júlí á Klambratúni
Ísafjörður - 14. júlí - 20. júlí á Eyrinni
Akureyri - 21. júlí - 3. ágúst við Drottningarbraut
Selfoss - 4. ágúst - 10. ágúst í Sigtúnsgarði
Keflavík - 11. ágúst - 17. ágúst á Ægisgötu
Reykjavík - 18. ágúst - 24. ágúst á Klambratúni

Vinsamlegast athugið

Utan höfuðborgasvæðisins er hægt að nálgast miða sem keyptir eru á midi.is í miðasölu sirkusins. Miðasalan er staðsett við tjaldið á hverjum stað og er opin á milli 11 og 17 alla daga. Nauðsynlegt er að koma með kvittun fyrir miðakaupum og skilríki.