Dalai Lama á Íslandi

Um viðburðinn

Hans heilagleiki 14. Dalai Lama, Tenzin Gyatso, handhafi Friðarverðlauna Nóbels og andlegur og veraldlegur leiðtogi Tíbeta, er væntanlegur til landsins og mun dvelja á Íslandi dagana 1.-3. júní næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn sem Dalai Lama heimsækir Ísland en hann hefur heimsótt fjölda landa undanfarin 50 ár, ýmist sem gestur trúfélaga, ríkisstjórna eða í boði einkaaðila.

Meðan á dvöl hans stendur mun Dalai Lama halda fyrirlestur þar sem hann fjallar um lífsgildi, viðhorf og leiðir til lífshamingju ásamt því að svara fyrirspurnum. Fyrirlesturinn verður haldinn í Laugardalshöll þann 2. júní kl. 15:00.

Dalai Lama er þekktur um allan heim fyrir að hafa aldrei hvikað frá þeirri stefnu að leita friðsamlegra lausna í málefnum Tíbets. Hann hefur verið óþreytandi baráttumaður og málsvari þjóðar sinnar frá því að hann flúði landið sitt árið 1959. Upp frá því hefur hann haft aðsetur í Indlandi og stýrt þaðan ríkisstjórn sinni í útlegð.

Þessi merki friðarleiðtogi er nú 73 ára gamall og gefst því landsmönnum einstakt tækifæri til að hlýða á þennan merka mann sem vakið hefur athygli og aðdáun um heim allan, á meðan hann er enn við góða heilsu.

Félagið Dalai Lama á Íslandi stendur fyrir heimsókninni og hefur séð um allan undirbúning hennar.

ATH að fyrirlesturinn fer fram á ensku.