Út af með dómarann! Uppistand í Bæjarbíói

Um viðburðinn

Dagur Steinn aka „kóngurinn í Reykjadal“ er 20 ára gamall íþróttaídíót sem skiptir um uppáhalds lið oftar en nærbuxur. 

Dassi eins og hann er gjarnan kallaður hefur þótt ódæll í stúkunni og í raun ótrúlegt að hann sé ekki í banni í fleiri íþróttahúsum og völlum. Ástríða hans á íþróttum brýst oftar en ekki út í óverðskulduðu skítkasti á dómara. Dassi hefur á síðustu árum haldið nokkra frábæra fyrirlestra um líf sitt, áskoranir og ævintýri á ráðstefnum og í skólum hér á landi. 

Nú ætlar hann að safna saman besta efninu sínu og stíga á stokk í Bæjarbíó og slá í gegn. Dagur Steinn fæddist með CP og notar hjólastól til að komast ferða sinna – hann hefur aldrei látið það stoppa sig í að njóta... eða þjóta ef svo ber undir. 

Uppistand Dassa er u.þ.b. 45 mínútur og honum til halds og trausts á sviðinu verða vinir og fjölskylda. Það verða sagðar skemmtilegar sögur, grín, glens og nánast örugglega sungið og rappað. 

Það kostar 1.500 krónur inn og rennur upphæðin óskert í íþróttaferðasjóð kappans. 

Dassi stefnir á leik í ensku deildinni en til þess að það geti ræst þarf hann að taka tvo aðstoðarmenn með sér.