Annes - Jazz night í Bæjarbíói

Um viðburðinn

Annes hefur starfað síðan 2014 eftir að nokkrir tónlistarmenn með farsælan bakrunn í íslensku tónlistarlífi ákváðu að sameina krafta sína. Hljómsveitin hefur síðan gefið út plöturnar "Annes" (2015) og "Frost" (2017). Af fyrri plötunni hlaut verkið "Henrik" Íslensku tónlistarverðlaunin í Jazz og blús flokki en "Frost" varð síðan plata ársins í sama flokki.

Hljómsveitin leikur höfundaverk meðlima þar sem skautað er frá andlegri endurspeglun veðurbrigða norðurslóðanna yfir í pólitíska satíru með umhverfisvitundina að leiðarljósi. Þó að tónlistin eigi sterkar rætur í tungumáli jazzins er hún fyrst og fremst suðupottur ólíkra áhrifa meðlima sem hver og einn hefur látið ríkulega til sín taka á persónulegum ferli. 

Strangar útsetningar, opinn spuni, hljóðstemningar, spilagleði, háleit hugmyndakerfi og bernskar hneigðir eru allt hluti af tónmáli Annes.

Annes:

Ari Bragi Kárason: Trompet, Flugelhorn, Hljómborð
Jóel Pálsson: Saxófónn
Guðmundur Pétursson: Gítar
Eyþór Gunnarsson: Píanó og Hljómborð
Einar Scheving: Trommur og Slagverk